152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:31]
Horfa

Daníel E. Arnarsson (Vg):

Herra forseti. Á síðustu árum hefur barátta trans fólks eflst til muna. Með rökum og skynsemi að vopni hefur barátta þeirra náð nýjum hæðum með tilheyrandi réttarbótum, t.d. lögum um kynrænt sjálfræði. Þessari baráttu er vissulega hvergi nærri lokið og nægar eru áskoranirnar í málaflokknum sem við á Alþingi þurfum að vera vakandi fyrir. Þó er það þannig að flest fólk verður allt í einu sérfræðingar í trans málefnum þegar þau mál ber á góma og veigrar sér ekki við að henda inn misgáfulegum athugasemdum úr misgáfulegum netfréttamiðlum eða samfélagsmiðlum. Ein af þeim mýtum sem löngu hefur verið hrakin er sú að með því að veita trans fólki þjónustu sé verið að búa til trans fólk og innræta, sérstaklega að breyta konum í karla. Þessi orðræða er ekki sæmandi og ekki bjóðandi enda ekkert nema eigin fáfræði og fordómar þar að baki. Eins hefur mikið verið rætt um það að trans fólk sjái eftir því að verða trans og sé jafnvel þunglynt eða með kvíða eftir aðgerðina. Staðreyndin er hins vegar sú að því lengur sem trans fólk fær ekki þjónustu eða viðurkenningu, þeim mun dýpri verður kvíðinn. Vissulega tekur ákveðinn tíma að vinda ofan af því eftir að kynstaðfestandi aðgerð er lokið. Þetta sýna ritrýndar alvörurannsóknir. Þetta segir alvörufagfólk. Og já, gleymum því ekki að þetta er það sem trans fólk segir sjálft. Mögulega ættum við að hlusta meira á einmitt þann hóp sem mörg hver tala frekar fjálglega um. Eins er því haldið á lofti að trans fólk sjái eftir aðgerðum sínum. Staðreyndin er þó sú að aðeins um 1% trans fólks sér eftir kynleiðréttandi aðgerð sinni. Setjum það í samhengi við meðaltal af öllum aðgerðum sem framkvæmdar eru. Þar er hlutfallið 14%.

Látum ekki kreddur, fordóma og uppspuna vísa veginn. Hlustum á hópinn sem við erum að tala um, fylgjumst með rökum fagfólks og upplýsum okkur til að við getum öll haldið áfram baráttunni, trans fólki öllu til heilla. Þau eiga það skilið eftir ötula og erfiða baráttu hingað til.