152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:33]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Kynferðisofbeldi er óaðskiljanlegur hluti af stríði, en samkvæmt stofnsáttmála alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Róm er nauðgun stríðsglæpur. Það er sama hvort við horfum til Bosníu, Rúanda eða Úkraínu, það er sama hvaða ár er, áratugur eða öld; nauðganir eru vopn í stríði. Þegar ég hugsa um stöðuna, hvar karlmenn brjóta á konum og börnum er það að mínu mati gjöreyðingarvopn.

Nú berast fregnir frá Úkraínu, sem við máttum svo sem búast við en eru þó svo hræðilegar að mig setur hljóða: Konur og stúlkubörn allt niður í 14 ára hafa greint frá skelfilegu kynferðisofbeldi og nauðgunum í stríðinu í Úkraínu. Kynferðislegt ofbeldi í stríði er beintengt samskiptum kynjanna á friðartímum. Kynjahalli í samfélögum og sú mismunun sem konur lifa við er sá jarðvegur sem kynferðisofbeldið vex upp úr. Launamisrétti og áreitni í orðum og gjörðum sem látið er standa óáreitt er næring í þann sama jarðveg. Við megum aldrei sofna á verðinum. Við megum aldrei láta sem jafnrétti sé náð meðan staðan er þessi. Við eigum að fordæma hvort sem eru orð eða gjörðir sem lúta að því að niðurlægja og smætta konur. Og við eigum að tala fyrir friði og standa með raunverulegum fórnarlömbum stríðsins sem alltaf eru óbreyttir borgarar, fyrst og fremst konur og börn.