152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[11:55]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur gerst tvívegis á undanförnum vikum að við þingmenn höfum verið hér langt fram eftir að ræða mál frá ráðherrum sem kemur svo í ljós að ráðherrar treysta sér í rauninni ekki til að halda áfram að mæla fyrir og draga til baka, draga aftur inn í ráðuneyti sitt. Mér hefur þótt hér í umræðum um fjármálaáætlun eins og að flestir ráðherrar — það er eiginlega komið í ljós að það er ekkert að marka þessa útgjaldaramma sem unnið er eftir. Ráðherrar hafa í rauninni ítrekað sagt: Nei, nei, útgjöldin verða miklu meiri en hér stendur. Já, nei, við ætlum að gera þetta og hitt.

En það er ekkert um það í þessari áætlun. Ég hef smá áhyggjur af því að það sé í rauninni bara verið að eyða tíma þingsins með þessari umræðu sem hefur farið fram hér undanfarna daga ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar standa ekki raunverulega á bak við þessa fjármálaáætlun, standa ekki með henni og því sem þar stendur. Annaðhvort er þetta (Forseti hringir.) einhver misskilningur hjá þeim á lögum um opinber fjármál og því ferli öllu eða þá að þeir virðast ekki styðja þetta plagg. (Forseti hringir.) Þannig að ég legg til að gert verði hlé á umræðu og umfjöllun um fjármálaáætlun.