152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[11:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að taka undir það sem hv. þingmaður segir hér, það er verið að halda því fram að þetta sé marklaust plagg áður en búið er að samþykkja það. Ég hlustaði á hæstv. mennta- og barnamálaráðherra þegar hann var spurður um þjóðarleikvang og þá var svarið eitthvað á þá leið: Ja, við skulum ekkert vera að lesa of mikið í þetta. En ef nýr þjóðarleikvangur verður byggður, eins og hann heldur fram, þá vantar 15 milljarða, væntanlega inn í þessa fjármálaáætlun og þá er verið að sýna afkomu sem stenst ekki. Skuldastaða ríkissjóðs verður þá allt önnur en verið er að segja hér í þessari fjármálaáætlun. Heilbrigðisráðherra segir: Já, við verðum að bæta í byggingu hjúkrunarheimila ef það vantar. En það er ekkert skrifað inn í fjármálaáætlun eftir 2024. Ég tek svo sannarlega undir þetta. Það er greinilega ekkert að marka þetta plagg.