152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:17]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir umræðurnar í dag um þetta. Þetta er málefni sem við nafnarnir brennum báðir fyrir, svo ég fái að segja það. Sú 2,5% hækkun sem er fjallað um í fjármálaáætluninni, er í rauninni það sem talið er vera kerfislægur vöxtur. Það byggir á áætlunum sem gerðar hafa verið en það sem við sjáum samt sem áður og er ánægjulegt er að nýgengi örorku hefur minnkað á undanförnum árum. Það er vegna þess að fleira fólk er að fara í endurhæfingu og fleira fólk er að skila sér út á vinnumarkaðinn. Það er þess vegna stór og mikilvægur hluti þess að geta uppfyllt þau markmið sem hv. þingmaður nefndi hérna áðan um innihaldsríkt líf og þar fram eftir götunum. Þannig að við þurfum að horfa á það að árangur hefur náðst á undanförnum árum. Það þýðir ekki að við þurfum ekki að gera miklu betur. Og eins og hér hefur komið fram, og við hv. þingmaður eigum sérstaka umræðu um hér síðar í dag, þá erum við að gera breytingar á almannatryggingakerfinu, breytingar þar sem við einföldum kerfið og gerum það skiljanlegra. Við gerum það gagnsærra, við búum til hvata en ekki lata fyrir þátttöku fólks á vinnumarkaði, sem skiptir gríðarlega miklu máli til að ná þeim markmiðum sem þarna koma fram.