152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvar vantar störf fyrir fatlað fólk eða öryrkja? Jú, það er hjá ríki og sveitarfélögum, sem draga lappirnar. Að segja að við ætlum að setja 430 milljónir í eitthvert kerfi sem enginn veit hvernig á að vera finnst mér kolrangt. Við eigum að einfalda kerfið eins og hægt er og segja bara við þetta fólk: Farið út, finnið ykkur vinnu, þið sem getið, þið sem viljið. Vinnið í tvö ár, borgið skatta. Á að gera það? Nei, það þarf auðvitað að búa til eitthvert starfsgetumat, eitthvert mjög flókið kerfi þar sem á að setja alla, liggur við, í sama boxið. Það er búið að reyna þetta og í guðanna bænum, reynum það ekki aftur. Reynum að finna einfaldar lausnir þannig að það sé sest niður með fólki og það fær að velja hvað það vill gera.

En ég spyr ráðherra: Sést hvergi í þessu riti, áætlun næstu ára, neitt um búsetuskerðingar? Það voru sett lög um búsetuskerðingar varðandi eldri borgara um að þeir fengju 90% af fullum lífeyri sem er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og núna er búið að benda á það í Hæstarétti að það er brot að fara svona með fólk. Ég sé hvergi leiðréttingu á því. Þessir einstaklingar, þeir verst settu, eru þeir einu sem fengu á sig krónu á móti krónu skerðingar aftur meðan aðrir fá 65 aura á móti krónu. Þetta er annað brot á jafnræðisreglunni. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þessi ríkisstjórn getur ekki farið að lögum? Þetta er einfalt mál. Ég bið ráðherra: Taktu á þessu máli. Breytið þessu. Ég skal gera allt sem ég get til að hjálpa ykkur. Hafið ekki einhvern hóp með 10% minna en lægstu bætur eru í keðjunni og krónu á móti krónu skerðingar. Þetta hvort tveggja er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.