152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:31]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mér fannst síðasta setningin hjá hv. þingmanni vera akkúrat það sem þetta snýst um, hvað aðlögun snýst um. Tungumálið er lykillinn, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það. Í stjórnarsáttmálanum er fjallað um að það eigi að setja stefnu í málefnum innflytjenda og þar held ég að þetta þurfi að vera ákveðið meginstef. Aðlögun snýst um að læra tungumálið. Aðlögun snýst líka um að fá tækifæri til þess að viðhalda sínu eigin tungumáli eða upprunatungumálinu. Aðlögun snýst um það að læra inn á samfélagið. Aðlögun snýst um það að vera tryggð túlkaþjónusta til að geta, þangað til að viðkomandi er orðinn nægjanlega fær í málinu, tekið þátt í samfélaginu. Þetta er það sem í mínum huga er hluti af því sem aðlögun snýst um. Ég hef áhyggjur af því að hér á Íslandi er sú þróun að gerast að fólk af erlendu bergi brotið er frekar í láglaunastörfum meðan fólk, sem við getum kallað innfæddir, er frekar í hálaunastörfum. Þarna er tungumálið lykilatriði upp á tækifæri fólks til að taka raunverulegan þátt í samfélaginu. Hv. þingmaður spurði líka um aðgang að íslenskunámi. Þó að því séu ekki gerð sérstaklega skil í fjármálaáætluninni sjálfri þá er fjármagn inn í það. En ég held að miðað við þann fjölda sem við erum að sjá koma til landsins þá sé þetta einmitt eitt af þeim verkefnum sem við þurfum núna í framhaldinu að horfa til að auka í við.