152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:42]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða við félags- og vinnumarkaðsráðherra sem hefur með málaflokka að gera sem hafa jafnaði mikil áhrif á afkomu fólks og hvernig líf þróast. Það eru margar breytur í þessu sem skipta miklu máli þegar við horfum til fjármálaáætlunar til lengri tíma. Við sjáum stóra breytu sem vegur þungt, sem er verðbólga og áhrif verðbólgu á afkomu fólks. Hún er nú þegar farin að bíta hart í fólk, þær vaxtahækkanir sem nú eiga sér stað. Það ræður miklu um aðrar stórar breytur sem eru þá kjarasamningsgerð í landinu. Í fjármálaáætlun er verið að tala um og gera ráð fyrir að gerðir verði hófstilltir eða ábyrgir kjarasamningar, eins og ég held að hafi verið nefnt, sem reiknað er með að verði 1–1,5% umfram verðbólgu. Við sjáum að spámenn tala um að verðbólgan geti farið að banka í hátt í 10%. Hæstv. ráðherra sagði einhvern tímann að aðilar verði nú að semja, en við skulum muna eftir því að ríkið er auðvitað bara stór samningsaðili, stór atvinnurekandi, með rúmlega 30% af útgjöldum í laun. Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra hyggst nálgast kjarasamningsgerð sem fram undan er og verður býsna erfið að mínu mati.