152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:49]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég minni hv. þingmann á að þetta heyrir nú undir málaflokk í innviðaráðuneytinu, en það er sjálfsagt að taka þessa umræðu við hv. þingmann hér líka, það er ekkert sem mælir gegn því. Á vegum þjóðhagsráðs var stofnaður hópur núna fyrir einum mánuði eða tveimur, ætli það séu ekki að verða komnir tveir, til að vinna sérstaklega að tillögum um aðgerðir í húsnæðismálum. Hann á að skila núna fyrir lok mánaðarins, ef ég man rétt, lok aprílmánaðar, og þar munum við væntanlega sjá tillögur sem eru þess vegna augljóslega ekki inni í þessari fjármálaáætlun. En ég vil segja að þau stofnframlög sem ríkið setti inn á síðasta kjörtímabili hafa skilað sér mjög vel. Ef ég man þetta rétt er um þriðjungur af þeim íbúðum sem verið er að byggja til komnar þess vegna. Það er hins vegar skortur á lóðum hjá sveitarfélögunum, sem er sennilega stærsti þátturinn í því að hér er ekki byggt meira.