152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vildi aðeins koma inn á málefni eldri borgara við hæstv. ráðherra. Það kemur fram á bls. 416 í áætluninni að mikilvægt sé að halda áfram á þeirri braut að bæta afkomu ellilífeyrisþega. Ég er svo sannarlega sammála því og þá koma náttúrlega upp í hugann skerðingarnar sem eldri borgarar hafa mjög svo haldið á lofti að eigi ekki að eiga sér stað, skerðingar á greiðslum til eldri borgara, bæði hvað varðar Tryggingastofnun og lífeyrisgreiðslur. Það er mjög mikilvægt og við öll sammála um það að atvinnuþátttaka eldri borgara sé sem mest. Nýlega var frítekjumarkið vegna atvinnutekna hækkað í 200.000 kr. Mig langaði að fá það kannski frá ráðherra hvort hann sjái fyrir sér frekari hækkanir á þessu frítekjumarki. En nú er það reyndar þannig að þó að þessi aðgerð sé vissulega fagnaðarefni þá gagnast hún kannski ekki nægilega mörgum. Ég held að það hafi verið talað um á sínum tíma, á haustmánuðum þegar þessu var breytt, að þetta nýtist milli 13–15% þeirra sem eru á atvinnumarkaði. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að frítekjumarkið verði hækkað? Eru þess einhver merki í þessari áætlun að hækka það? Það skiptir náttúrlega máli og hvetur til þess að eldra fólk sé lengur á vinnumarkaði fyrir þá sem hafa heilsu og getu og vilja til þess og það er eins og við þekkjum öll lýðheilsumál.