152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég tek undir með honum að það er mjög mikilvægt að huga að þeim sem eru verst settir í þessum hópi eldri borgara, það er þó nokkuð stór hópur. Í þeim efnum skiptir verulegu máli að fólk hafi það mikið milli handanna að það búi hreinlega ekki við fátækt. Það er annað sem ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra út í, en það eru greiðslur til þeirra sem eru á dvalarheimili og eru stundum nefndar vasapeningur, það er nú kannski ekki heppilegt orðalag. Einstaklingur sem hefur bara rétt um 250.000 kr. eftir skatt í tekjur og býr á dvalarheimili fær kannski einhverjar 50.000 kr. sem hann þarf að lifa af, svona til að geta veitt sér eitthvað í daglegu amstri á mánuði. Þetta er náttúrlega ákaflega lág fjárhæð. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að reyna að bæta úr þessu með einhverjum hætti? Þetta skiptir þessa einstaklinga verulega miklu máli. Svo vil ég taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði hér um almenna frítekjumarkið, sem er núna 25.000 kr. á lífeyristekjur, að það er svo sannarlega nauðsynlegt að hækka það. Eru einhver merki þess í fjármálaáætlun að þetta frítekjumark verði hækkað þó það sé ekki mikið? Það kostar að vísu, það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, þetta er fjárfrek framkvæmd. En það munar um allt í þessu og væri eðlilegt, þar sem hér er verið að tala um áætlun til fimm ára, að þess sæjust merki að það væri einhver hækkun á þessu frítekjumarki.