152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:57]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um greiðslur til fólks sem býr á hjúkrunarheimilum þá held ég að það sé alveg þess virði að fara ofan í það hvort breyta ætti því fyrirkomulagi. Starfshópar sem hafa verið að fjalla um kjör eldra fólks hafa einmitt bent á að það sé kannski skynsamlegt að líta til þess að fólk haldi þeim tekjum sem það hefur þegar það fer inn og borgi þá frekar inn. En þetta er eitthvað sem mér finnst að þurfi að skoða, hvað komi best út fyrir eldra fólk.

Ég held að við séum bara sammála um það að það sé markmið að huga að hækkun frítekjumarks, þessa almenna frítekjumarks, sem hefur ekki hækkað frá því að lögin voru sett 2017 og hefur staðið í stað í 25.000 kr. Með því móti gætum við betur komið til móts við aðra, þriðju og jafnvel upp í fjórðu tekjutíund eldra fólks og auðvitað annarra líka sem eru ofar. En ég held að þetta myndi skipta miklu máli. Það er ekki gert ráð fyrir þessu í núverandi fjármálaáætlun. En þetta er eitthvað sem mun fara inn í starfshóp sem ég er í þann veginn að skipa sem á að taka m.a. þetta til skoðunar. Við verðum þá að sjá hvort það fáist fjármagn til að ganga í þetta. Þetta er líka eitt af helstu baráttumálum eldra fólks og hef ég skilning á því.