152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:08]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir samtalið um þetta efni. Hv. þingmaður kemur inn á mjög mikilvægt mál sem er samþjöppun í sjávarútvegi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að það verði farið í endurskoðun á fiskveiðistjórninni, gagnsæi greinarinnar o.s.frv. og hæstv. matvælaráðherra hefur þegar sett vinnu í gang við að undirbúa samráð og samtal um þetta. Hún hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda hvernig hún hyggst nálgast þetta viðfangsefni. En ég get sagt það að ég held að þegar um er að ræða nytjastofna og auðlind sem er sameign þjóðarinnar, eins og kveðið er á um í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, þá er eitt af grundvallaratriðunum að huga að samþjöppun í sjávarútvegi eða í nýtingu nytjastofnanna. Það er eitthvað sem ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um. Annað sem er auðvitað lykilatriði er að við horfum áfram til þess að nýta auðlindir sjávar með sjálfbærum hætti og að það þurfi að sjálfsögðu að koma gjald fyrir þegar einkaaðilar nýta þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar.