152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Já, það er þetta með skýrslurnar sem margar eru nú til um sjávarútvegsmál og mætti kannski nýta einhverjar af þeim til að bæta kerfið. Til meðferðar í atvinnuveganefnd er frumvarp sem ég er fyrsti flutningsmaður að. Frumvarpið miðar að því að hrinda í framkvæmd tillögum verkefnisstjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem verkefnisstjórnin skilaði til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 30. desember 2019. Verkefnisstjórninni var m.a. falið að bregðast við ábendingum í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu er varðar samþjöppun aflaheimilda. Þarna eru góðar skýrslur til að byggja á til að bæta kerfið. Verkefnisstjórnin lagði til að skilgreining tengda aðila yrði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra og að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiddu til þess að fyrirtæki væru talin tengd nema sýnt væri fram á hið gagnstæða líkt og á við í lögum um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt lögum um raunverulega eigendur frá árinu 2018 telst m.a. til raunverulegra eigenda einstaklingur sem á í raun eða stjórnar lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ræður yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða telst á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Sá munur sem er á skilgreiningu eignatengsla samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og lögum um raunverulega eigendur skýtur skökku við, enda getur aðili talist raunverulegur eigandi lögaðila án þess að teljast tengdur aðili samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að endurskoða þurfi lögin strax í þeim tilgangi og þeim anda sem verkefnisstjórnin lagði til og ríkisendurskoðandi benti á að þyrfti að gera og að ekki þurfi að bíða eftir fleiri skýrslum til að vinna gegn skaðlegri samþjöppun í sjávarútvegi?