152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:12]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefnir að það séu margar skýrslurnar og einhver sagði, ef ég man rétt, að margar væru nefndirnar. Við ættum kannski að fara að segja líka: Margar eru skýrslurnar líka. Það myndi ríma við. En án spaugs þá er auðvitað mjög margt efni sem er til þarna. Hæstv. matvælaráðherra hefur talið að beita þurfi nýrri nálgun við að nálgast þetta viðfangsefni. Þetta eru stórar áskoranir en það eru líka stór tækifæri í sjávarútvegi sem snerta samfélagið allt með beinum eða óbeinum hætti. Um það erum við öll sammála. Þannig að í stað einnar stórrar nefndar hyggst ráðherrann stofna til opins og gagnsæs verkefnis fjölmargra aðila sem unnið verði að með skipulögðum hætti. Og þetta er einmitt eitt af því sem tekið verður fyrir í fyrrgreindri stefnumótunarvinnu sem ég nefndi hér áðan. En það má kannski líka að nefna að það var lagt fram frumvarp á síðasta kjörtímabili sem náði ekki fram að ganga og ráðherrann sér fyrir sér, eins og ég skil þetta, að þessi vinna geti farið inn í þennan farveg og þar með verði þetta atriði, tengdir aðilar í sjávarútvegi, skoðað sem hluti af þeirri heildarstefnumótunarvinnu.