152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að koma inn á nýliðun í landbúnaði við hæstv. ráðherra og það hvort það séu einhver merki þess í fjármálaáætluninni að ríkisvaldið sé að stuðla að nýliðun í landbúnaði. Það er mjög mikilvægt að ungir bændur eigi þess kost að eignast jörð eldri kynslóða án þess að stofna til þungrar skuldabyrði. Við þekkjum það líka að vegna bara meðfæddra tengsla við arfleifð og land og lífsstíl þá eru ættliðaskipti mun algengari í landbúnaði en í öðrum rekstri. Það er líka þannig að það er oft vilji þeirra sem eignast jörð að henni verði ráðstafað innan fjölskyldunnar og jafnvel til tiltekins ættingja sem hyggst halda áfram búskapnum. En það getur hins vegar verið verulegum vandkvæðum bundið að ráðstafa slíkum jörðum til yngri kynslóða án þess að slíkt stofni til íþyngjandi skulda fyrir viðkomandi. Svo komum við að því að verðmæti bújarða hefur aukist verulega vegna uppbyggingar á undanförnum árum. Þess vegna getur reynst mjög erfitt fyrir næstu kynslóð að kaupa þær af foreldrum sínum eða meðerfingjum. Ég hef flutt hér þingsályktunartillögu um að ráðherra verði falið að finna leiðir til þess að þessi ættliðaskipti geti gengið í gegn án þess að það sé verið að greiða af því há og mikil gjöld einfaldlega til þess að stuðla að ábúð í landinu. Ég vildi kannski heyra frá hæstv. ráðherra með þetta mikilvæga mál og hvort það séu einhver merki í fjármálaáætlun um að reyna að stuðla að þessari nýliðun í landbúnaði af hálfu ríkisvaldsins.