152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:23]
Horfa

Georg Eiður Arnarson (Flf):

Virðulegi forseti. Þar sem ég hef nú starfað í sjávarútvegi alla mína ævi þá langar mig aðeins að koma inn á þau mál. Kvótakerfið var sett á 1984. Markmið kerfisins voru að byggja upp fiskstofna á Íslandsmiðum. En spurningin sem maður spyr strax þar er: Er það kannski ekki markmiðið lengur? Nú hefur þetta algerlega mistekist og kvótakerfið í dag skilar okkur minni afla í öllum tegundum sem settar voru í kvóta strax 1994, en þá voru settar sjö tegundir í kvóta. 1999 byrjum við síðan að henda inn fleiri og fleiri tegundum og staðan á öllum tegundum sem settar hafa verið í kvóta frá 1999 er svona 15–25% í úthlutuðum aflaheimildum í dag, miðað við hvað við vorum að veiða áður en tegundirnar voru settar í kvóta. Þessi árangur eða árangursleysi segir okkur svolítið um kerfið sem slíkt. Þurfum við ekki að fara að skoða hvað er að? Hvað er að gerast? Hvers vegna tekst þetta ekki? Hvar mistókst okkur? Er ráðherrann með einhverja lausn á þessu? Og síðan er hitt að við sjáum núna loðnuvertíðina; skyndilega veiðast ekki 24% af loðnukvótanum og þarna mæta skipstjórar í viðtöl og segja: Ja, við vissum þetta alltaf, við vissum að Hafró hefði mælt þetta vitlaust. Í sögunni getum við séð aftur og aftur Hafró mæta í viðtöl og segja: Úps, við reiknuðum þetta vitlaust. Úps, við reiknuðum þetta skakkt. Úps, skekkja í útreikningum. Aftur og aftur og aftur. Þarf ekki að fara að skoða aðferðafræðina við að mæla stofnana og fá óháðan aðila til að taka þetta út?