152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir að hlaupa í skarðið fyrir hæstv. matvælaráðherra og þó að ég hefði gjarnan viljað fá að spyrja matvælaráðherra beint þessara spurninga þá verð ég að vona að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra geti svarað. Í umræðunni undanfarin ár eða áratugi hefur mikið verið talað um auðlindagjald og það sem útgerðir borga fyrir aðgang að auðlindinni í hafinu. Ein af grunnhugmyndunum í kringum þetta gjald er að það geti staðið undir þeim kostnaði sem ríkið hefur við það að halda úti virku eftirliti og öðru í kringum þetta. En raunin er sú að þetta fjármagn dugar ekki. Í fyrri spurningu minni í dag langar mig að tala um veiðieftirlitið. Nú er nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar þar sem m.a. kemur fram að það sé ekki viðeigandi að Landhelgisgæslan kaupi olíu á varðskipin sín í Færeyjum. Þetta mun leiða til þess að Landhelgisgæslan mun ekki geta siglt varðskipum sínum eins mikið og hún hefur verið að gera og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða áhrif mun þetta hafa á veiðieftirlitið eða er einhver áætlun um það að hækka veiðigjöldin til að mæta auknum kostnaði við þetta eftirlit?