152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:35]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara ekki spurningunni. Það er alltaf gott að segja: Þetta heyrir undir, þetta heyrir undir, en það er ekki svar. Það er nefnilega þannig að veiðieftirlit passar líka að aðrir séu ekki að veiða innan okkar lögsögu og ýmislegt annað og það tengist sjávarútveginum og þar af leiðandi ætti sá kostnaður að vera hluti af því sem veiðieftirlitið á að dekka, þar að auki Fiskistofu. Þá erum við komin með lægri tekjur af veiðigjaldi heldur en það sem við setjum í útgjöld vegna þessara mála.

Mig langaði í seinni spurningunni að fjalla aðeins um hafrannsóknir eins og hv. þingmaður gerði hér áðan. Nú verður maður var við þrýsting frá sjómönnum, þrýsting frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og jafnvel þrýsta umhverfissamtök á að við nýtum vísindin þegar kemur að hafrannsóknum. Aðferðafræðin hefur ekki breyst neitt mjög mikið síðan við settum kvótakerfið á og eiginlega allir sem ég hef heyrt tala um þetta hafa nefnt að það þurfi að fjárfesta meira í þessum vísindum, skilja meira. Þá aftur spyr ég um nákvæmlega það sama: Hvar ætlum við að sækja þetta fjármagn? Ætlum við að auka þessi vísindi og ætlum við að hækka veiðigjald til þess að ná upp í þann kostnað?

Svo langar mig bara að segja að það var verið að byggja nýtt varðskip og ekki veit ég til þess að það hafi verið rafmagn í því, henni Freyju.