152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:37]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Nei, ég tek undir það, því miður er það ekki þannig með Freyju. En nýtt hafrannsóknaskip á samt sem áður að vera útbúið þannig að það verði auðvelt að ráðast í orkuskipti í framtíðinni, þannig að það sé nú sagt. Ég bið hv. þingmann afsökunar að ég fór aðeins að snúa út úr fyrir honum. Ég er ekki búinn að fá páskamatinn sem hann er búinn að fá frammi. Auðvitað fer Landhelgisgæslan líka með eftirlit, þó svo að þetta sé langmest Fiskistofa, þannig að það sé sagt. En ég vil taka undir það sem hv. þingmaður kom inn á um gildi og mikilvægi vísindanna sem undirstöðu ráðgjafarinnar. Þetta er ekkert rosalega flókið þegar við horfum á það í stóru myndinni, þó svo að þessar rannsóknir séu vissulega flóknar. Og af hverju eru þær flóknar? Þær eru flóknar vegna þess að vistkerfi sjávar er flókið, það er ekki flóknara en það. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að í allri okkar ráðgjöf um það hvernig við nýtum nytjastofna okkar þá sé vísindaleg ráðgjöf þar að baki og ég veit ekki betur en að aðferðir Hafró séu bara þær bestu sem gerast og séu á heimsmælikvarða. Þau eru í miklu erlendu samstarfi og ég vonast til að við sjáum aukna fjárfestingu í vísindum almennt, hvort sem það er á hafi eða landi, til að undirbyggja mikilvægar ákvarðanir sem varða framtíð vistkerfanna okkar og eru þar með undirstaða fyrir efnahagslegan stöðugleika, efnahagslegan vöxt og velferð samfélaga okkar.