152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:40]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að eiga hér orðastað við félags- og vinnumarkaðsráðherra, í dulargervi í augnablikinu sem matvælaráðherra, og er það vel því að sá einstaklingur þekkir ágætlega til, veit ég. Mig langar aðeins í þessu samhengi að ræða um málefnasvið 12, þ.e. landbúnað. Það eru þrjú markmið sem við höfum skilgreint fyrir málaflokkinn og er þar tekið tillit til áskoranna framtíðarinnar og tækifæra til umbóta. Framtíðarsýn málaflokksins er heilnæm og sjálfbær matvælaframleiðsla og er markmiðunum ætlað að endurspegla þrjár víddir sjálfbærrar þróunar, þ.e. efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega sjálfbærni. Það skapar skilyrði til fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu með sjálfbærri landnýtingu og nýsköpun að leiðarljósi, og kemur ágætlega fram í texta í málefnasviði 12 hvernig við viljum nálgast það. Síðan er hér mikið og stórt verkefni sem snýr að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og auka bindingu. Svo er mjög mikilvægur punktur sem hefur verið mikið í umræðunni núna upp á síðkastið, sem er að efla fæðuöryggi og standa vörð um heilbrigði plantna, velferð dýra og öryggi matvæla. Það væri áhugavert að fá að heyra ofan í hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra í dulargervi matvælaráðherra um hvað honum finnst um þessi þrjú atriði.