152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:46]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir umræðuna hér í dag. Mig langar að koma aðeins inn á þetta síðasta sem hv. þingmaður nefndi hér um Landgræðsluna og Skógræktina og mikilvægi þeirra verkefna sem þessar stofnanir vinna. Ég veit að á síðasta kjörtímabili jókst samvinna á milli stofnananna talsvert mikið og það er mjög jákvætt. Bæði var það nú svo að þær fóru í sameiginleg verkefni þar sem fjármagn var veitt inn í verkefni sem báðar stofnanirnar komu að. Það eru sjálfsagt skiptar skoðanir um það hvort að það eigi að sameina þessar tvær stofnanir eða efla enn frekar samvinnu þeirra og ég ætla að eftirláta hæstv. matvælaráðherra að taka þann bolta. En almennt séð vil ég bara segja að þessar stofnanir eiga að mínu mati bæði að vera í framkvæmdaverkefnum og svo veita þær náttúrlega þessa ráðgjöf líka, en þær þurfa einnig að mínu mati að geta veitt ráðgjöf til einkaaðila eða jafnvel komið að verkefnum sem einkaaðilar vilja taka þátt í þannig að við ástundum landgræðslu og skógrækt með sem allra bestum hætti byggt á þeim vísindum sem við viljum byggja það á. Það á m.a. við um hvaða tegundir við notum í landgræðslu og skógrækt og hvaða áhrif tegundanotkun getur haft á viðkvæma náttúru landsins.