152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:55]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla eiginlega að byrja á því að segja að ég ber mikla virðingu fyrir því að hv. þingmaður og þingmenn Viðreisnar hafa tekið málefni sjávarútvegsins heilmikið til umræðu hér á þingi. Ég held að það sé mjög jákvætt og gott. En hv. þingmaður og flokkur hans vilja fara markaðsgjaldsleiðina sem við í VG erum ósammála því að við teljum að það geti leitt til frekari samþjöppunar. Þar erum við ósammála. Ég held því að það sé einmitt mjög mikilvægt það sem hæstv. matvælaráðherra er að gera, þ.e. að setja það sem snýr að auðlindarentunni, sem og þessari víðtæku endurskoðun á því hvernig við nálgumst auðlindir hafsins, inn í þá heildarvinnu sem nú er í gangi. Ég vonast til að úr því myndist vísir að einhverju sem meiri sátt gæti orðið um. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að margir úti í samfélaginu telja að meira gjald þurfi að koma fyrir notkun auðlindarinnar og ekki bara þessarar auðlindar. Það eru fleiri auðlindir sem einkaaðilar nýta í dag sem eru sameign þjóðarinnar. Við getum nefnt ferðaþjónustuna. Við höfum horft til rafmagnsframleiðslu o.fl., þar eru það að vísu ekki einkaaðilar heldur fyrst og fremst Landsvirkjun; það er bara nýlega sem farið er að borga fyrir það. Við gætum nefnt það sem margir einkaaðilar hafa áhuga á og er vindurinn. Það er mjög jákvætt að við tökum þessa umræðu hér en ég verð víst að hætta.