152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:33]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er orðið ljóst að þjóðarskútunni er stýrt af einu ráðuneyti og því ráðuneyti veitir enginn forystu. Valdaþreyta, doði, skortur á sýn — hér birtist plagg sem er einn stór framreikningur. Hingað upp í pontu hafa komið ráðherrar Framsóknarflokks og Vinstri grænna og farið fögrum orðum um stefnumótunarvinnu og áætlanir út kjörtímabilið. Það virðist algjört sambandsleysi innan ríkisstjórnarinnar því að eini peningurinn sem er í þessari áætlun er til að mæta fjölgun þjóðar, varla verðbólgu og hvað þá yfirvofandi launahækkunum. Hér er gripið í tómt þegar kemur að fyrirbyggjandi aðgerðum í aðdraganda kjarasamninga og ítrekuð loforð um húsnæðisaðgerðir kolfalla í þessari áætlun. Það er samdráttur í framlögum til húsnæðismála í þessari fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Svo eru viðbrögð hæstv. Framsóknarráðherra þau að sú fjármögnun komi í næstu fjármálaáætlun. Þetta er áætlun út kjörtímabilið sem við erum að lesa hér. Hæstv. ríkisstjórn er búin að birta stjórnarsáttmála, hæstv. ríkisstjórn er búin að semja um áherslur, að því er þjóðin hélt. Þær áherslur birtast hér.

Hæstv. fjármálaráðherra bendir hér á með klassískum hætti að við sem gerum athugasemdir við þetta augljósa misræmi viljum bara eyða allt of miklum pening, kunnum bara á útgjaldahliðina. Í fyrsta lagi snýst þetta ekkert um hvað við hin viljum. Þetta snýst um þau loforð sem hæstv. ríkisstjórn birti með pompi og prakt síðasta haust. Þetta snýst um málflutning sem þjóðinni berst til eyrna vikulega um hin og þessi verkefni frá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar, fólkinu sem þjóðin telur að stjórni landinu, fólkinu sem sendir skýr skilaboð til almennings um að aðgerðir séu í farvatninu. Þetta er blekkingarleikur. Ef ekki er áhugi á þessum verkefnum, húsnæðisátaki, uppstokkun í heilbrigðiskerfinu, að bæta afkomu fólks sem styðst við almannatryggingar, þá þarf að segja það. Það er ekki hægt að haga sér eins og velferðarsinni í aðdraganda kosninga og í fréttatímum þegar hentar en stýra landinu með harðri hægri pólitík.

Í öðru lagi, svo að ég fylgi hér eftir pólitík velferðarsinna, er þessi afvegaleiðing á umræðunni, að við í Samfylkingunni, að sú sem hér stendur, stöndum bara fyrir óráðsíu og viljum bara útgjöld, orðin fremur þreytt. Athugasemdir við þessa fjármálaáætlun snúa nefnilega nákvæmlega að því að ef við höldum svona áfram, undir áhugaleysi hæstv. fjármálaráðherra á að móta samfélagið og undir fölskum velferðarforsendum samstarfsflokka hans, þá lendum við í verulegum kostnaðarvandræðum. Hvar endar þessi framreikningur? Það eru vítahringir hér úti um allt sem auka ósjálfbærni ríkissjóðs sem þarf að rjúfa með pólitískri forystu, ekki framreikningi. Húsnæðismarkaðurinn fyrir það fyrsta — launakostnaður er þriðjungur af rekstrarkostnaði ríkissjóðs, helmingur hjá sveitarfélögunum, en húsnæðiskostnaður er stærsti einstaki útgjaldaliður heimilanna og hér gætir afstöðuleysis og aðgerðaleysis í þeim málaflokki. Úrræðaleysi stjórnvalda, sem eru greinilega búin að missa traust landsmanna í þessum málaflokki, er algjört því að ekkert foreldri í landinu þorir að bíða deginum lengur með að kaupa íbúð fyrir börnin sín. Allir flykkjast á markaðinn þessa dagana, mun fleiri en þyrftu að kaupa á hverjum og einum tíma. Þessi hegðun á húsnæðismarkaði er til marks um algjört vantraust á getu ríkisstjórnarinnar til að sýna forystu í stærsta einstaka velferðar- og efnahagsmáli landsins. Það trúir því enginn að hæstv. ríkisstjórn muni ná tökum á markaði fyrir heimili fólks. Verðhækkanir á húsnæði eru stærsti einstaki liðurinn í verðbólgunni, hafa rýrt ráðstöfunartekjur tekjulágra og sérstaklega ungs fólks stórkostlega.

Í staðinn fyrir að sýna forystu, taka af skarið, grípa inn í og móta þennan mikilvæga markað sker ríkisstjórnin niður framlög til húsnæðismála, þvert á yfirlýsingar hæstv. innviðaráðherra sem sagði í þessari pontu í síðasta mánuði: Sá ráðherra er hér stendur leggur mikla áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis um allt land og hefur lagt inn tillögur í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 um verulega aukningu fjármuna til að fjölga uppbyggingu íbúða fyrir tilstuðlan opinbers húsnæðisstuðnings. Þetta er ekki hér.

Svona förum við inn í kjarasamninga í haust. Hættan er sú að hér komi hrina almennra launahækkana því að ríkisstjórnin skilur ekki rekstur á velferðarríki. Hún skilur ekki að slíkur rekstur snýr að samvinnu ríkis, sveitarfélaga, launafólks og atvinnurekenda þannig að kjarabætur komi annars staðar frá en bara úr launaumslaginu. Slíkur rekstur snýr að öflugu barnabótakerfi sem á Íslandi, ólíkt því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum, er fátæktarstyrkur. Slíkur rekstur snýr að vaxtabótakerfi sem styrkir húsnæðislið ungs fólks og tekjulágra, ekki tug milljarða króna skattafslátt til tekjuhæstu tíundanna sem ríkisstjórnin hefur skipt vaxtabótakerfinu út fyrir. Svoleiðis rekstur á velferðarríki dregur úr kostnaði.

Það sem er í gangi í þessari áætlun mun ekki enda vel hvað varðar útgjöld ríkissjóðs. Það er stóri misskilningurinn í málflutningi hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er bæði léleg velferðarstjórn og léleg fjármálastjórn. Á einhverjum tímapunkti þarf að fara í grunnfjárfestingar, koma kerfunum okkar upp úr vanstilltu ástandi, ójafnvægi, til þess einmitt að halda aftur af kostnaði. Heilbrigðiskerfið er annað dæmi. Það eina sem á að gera í þessari áætlun er rétt svo að halda í reiknaðan raunvöxt þrátt fyrir að við vitum að kerfisbreytingar og áherslubreytingar þurfi til að draga úr óhagræði.

Virðulegi forseti. Þessi fjármálaáætlun er til marks um áhugaleysi á rekstri velferðarsamfélagsins. Þetta er algjör uppgjöf. Fjárfestingar fara fallandi á tímabilinu. Enn bíðum við eftir skýrslu Haraldar Líndals um stöðu sveitarfélaga, skýrslu sem opinberar hvernig ríkisstjórnin hefur stundað markvissa niðurskurðarstefnu bakdyramegin í gegnum sveitarfélögin sem bitnar á grunnþjónustu við fólkið í landinu. Ekkert er fjallað um 9 milljarða kr. fjármögnunargat í málaflokki fatlaðs fólks í þessari áætlun. Og hvar er skýrsla um stöðu sveitarfélaga? Á að fela hana fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar?

Hér er ríkisstjórn sem uppfærir bara skjöl án pólitískrar stefnumótunar. Hér er enginn að leiða okkur inn í framtíðina, engin forysta líkt og við verðum vitni að þessa dagana þegar kemur að sölu á mikilvægri ríkiseign. Það tekur enginn ábyrgð. Þar er engin forysta. Hæstv. fjármálaráðherra vísar á stofnun og söluaðila sem voru ráðnir án útboðs, hefur ekki sýnt því áhuga að tryggja að þetta ferli endi með farsælum hætti. Slíkt áhugaleysi, forystuleysi, hefur komið okkur á núllpunkt þegar kemur að trausti gagnvart bankakerfinu. Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að þessu. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra hafa brugðist íslenskri þjóð, sent þau skilaboð til erlendra fjárfesta, sem sitja um ríkiseignir í vanþróuðum löndum, að Ísland sé staður þar sem hægt sé að komast upp með að snúa ríkiseign við, græða á nokkrum dögum. Þetta áhuga- og afstöðuleysi, þessi skortur á forystu, hefur alvarlegar afleiðingar þegar kemur að trausti í samfélaginu og að sama skapi mun þetta áhuga- og forystuleysi halda aftur af framþróun í efnahagslífinu. Slík framþróun felst ekki í framreikningi í einu ráðuneyti eins og birtist hér.

Stóra spurningin sem hv. fjárlaganefnd þarf að ræða vel er: Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að fjármagna öll þau loforð og fyrirheit sem hafa verið gefin? Verður bakkað með þau loforð? Ríkisstjórnin vill umfram allt stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs hratt og eigi síðar en árið 2025. Er það grundvallarmarkmið þessarar ríkisstjórnar? Talað er um að safna í sarpinn fyrir næstu áföllum, við þurfum að hafa efni á öllum þeim úrbótum sem þarf að ráðast í. Á þá að bíða með úrbætur í fimm ár á meðan vandinn vindur víða upp á sig? Hver er kostnaðurinn við það? Hv. fjárlaganefnd verður að taka þessa áætlun og gera á henni miklar breytingar þegar við komum saman eftir páska. Ég hef reyndar áhyggjur af því að línan sé skýr úr ráðuneytinu sem hér ræður. Það er nefnilega afskaplega erfitt að eiga við þetta forystuleysi.