152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið umræða sem fram hefur farið með dálítið nýju sniði og hefur gengið ágætlega, að því er mér finnst. Það hafa hér komið talsmenn flokkanna og í kjölfar þess allir ráðherrar og svarað fyrir sína málaflokka. Það sem ég legg almennt áherslu á í þessari umræðu er að við náum að taka þessa heildstæðu umræðu sem horfir til markmiðs laganna um opinber fjármál um að efla hér hagstjórn og áætlanagerð. Þegar lagt var upp með þessi nýju lög um opinber fjármál var það rætt og viðurkennt að Stjórnarráðið hefði þörf fyrir að byggja upp getu til að sinna langtímaáætlanagerð. Við veittum sérstakt fjármagn inn í allt Stjórnarráðið til að gera það og höfum ár frá ári verið að byggja upp reynslu, þekkingu og getu til að sinna því hlutverki betur.

Ég tek eftir því hér í dag, og tók líka eftir því í gær, að það er töluverð athygli á áætlanagerðinni. Ég hef m.a. verið að ræða um framkvæmdaáætlanir, framkvæmdastig ríkisins og það er rætt hér á blaðsíðu 89 og 90 í þessari áætlun að við erum með heildstæða endurskoðun á áætlanagerðinni í vinnslu og höfum gert okkur vel grein fyrir því, ekki síst þegar við höfum þurft á því að halda að auka fjárfestingarstigið, að markmiðasetningin er á köflum dálítið óraunhæf hjá okkur, sem smitast út í því að peningar eru læstir, eyrnamerktir einstaka verkefnum sem síðan komast ekki til framkvæmda. Þessu þarf að vinna bót á.

Ég lagði á það áherslu hér í upphafi að þessi fjármálaáætlun boðaði miklu bjartari tíma. Við værum hér með nokkuð bjartar horfur, skuldasöfnun yrði stöðvuð, það væri kaupmáttur samkvæmt hagspám í kortunum fyrir launafólk, ágætishagvöxtur og vöxtur í störfum í landinu á komandi árum. Þetta skjal, þessi fjármálaáætlun, er mikilvægt innlegg inn í þá stöðu sem við horfum upp á í augnablikinu, sem er verðbólga og áhyggjur af henni. Við erum hér að boða breytta tíma í ríkisfjármálunum með því að við erum ekki með sama hætti að örva hagkerfið eins og við vorum að gera fram á þennan tíma í gegnum ár heimsfaraldursins. Með því erum við að leggjast á árarnar með Seðlabankanum sem hefur í millitíðinni hækkað vexti og bent á að framleiðsluslakinn er horfinn úr hagkerfinu. Til að koma til móts við það erum við að draga úr raunhækkun ríkisútgjalda á næstu árum og sem hlutfall af landsframleiðslu fara þau heldur lækkandi á áætlunartímabilinu en það er samt sem áður raunvöxtur upp á um 1%. Hann er mestur í heilbrigðiskerfinu þar sem á sama tíma er engin aðhaldskrafa, en hann er minni annars staðar og aðhaldskrafan er sögulega séð mjög takmörkuð. Það er því áfram svigrúm og það myndast líka svigrúm inni á einstökum málefnasviðum þegar stór verkefni klárast. Auðvitað á það við um fjárfestingarsvigrúmið en það á líka við í öðrum tilvikum. Síðar á þessu ári verður kjaralota á almenna vinnumarkaðnum og þess vegna munu verða teknar ákvarðanir sem geta haft mikil áhrif á þessa mynd í heild sinni.

Við drögum það fram í þessu skjali hvernig vaxtabyrði heimilanna hefur verið að þróast yfir tíma. Það má sjá hér á blaðsíðu 43 hvernig á ólíkum tímum tekjutíundirnar hafa verið með, eftir því sem lengra líður á tímabilið sem horft er til frá 2009–2020, hvernig byrði vaxtakostnaður hefur farið lækkandi meðal allra tekjuhópa sem hlutfall af tekjum. Þetta leiðir annars vegar af því að við höfum haft hér hækkandi laun en líka minni vaxtabyrði. Þetta er eftirsóknarvert og eitthvað sem við viljum vernda og byggja áfram undir.

Að þessu sögðu, virðulegur forseti, þá vil ég bara þakka fyrir málefnalega umræðu, sem ég ætla ekki að fara að rekja hér eða svara öllum athugasemdum vegna. Ég fagna því bara að umræðan um hagrætt hlutverk fjármálaáætlunar er að dýpka og þótt hér hafi verið skiptar skoðanir um það hversu vel hafi tekist til í áætlanagerðinni er umræðan engu að síður að þroskast og við erum að verða betri í þessari áætlanagerð. Við eigum að horfast í augu við veikleika í áætlanagerð eins og er verið að gera að hluta til hér. En aðalmálið núna finnst mér vera það að koma auga á stóru myndina, sem er sú að það er bjart fram undan í íslenskum efnahagsmálum.