152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:13]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég er bara rétt búin að skanna yfir þetta frumvarp en ég las það betur þegar ég hlýddi á ræðu hans og hvar svo sem við stöndum í þessu máli varðandi krónu og evru þá er þetta áhugavert. Það segir ákveðna sögu, finnst mér, að íslenski löggjafinn sé í þeirri stöðu að þegar það þarf að ramma inn einhvern fasta í lagasetningunni þá beitir hann evrunni. Kannski að það sé skýringin. Það minnir mig á áhugavert samtal sem ég átti síðastliðið haust í kosningabaráttunni þar sem ég sótti lítið fyrirtæki á fundi þar sem menn vísuðu í það rekstrarumhverfi sitt að fyrirtæki í sömu grein sem var starfrækt í Þýskalandi gæti leyft sér þann munað að prenta sölubæklingana sína. Ég var í smástund að kveikja á því hvað viðkomandi var að fara og hann segir: Jú, það er vegna þess að verðin þola það að standa á pappír. Verðin standa óbreytt, sem var þá veruleiki viðskiptanna í evruumhverfinu. Ég heyrði ræðu hv. þingmanns en vildi samt koma hér upp sérstaklega til að spyrja hann út í þennan punkt varðandi framlag í skilasjóð eins og það er lagt upp í frumvarpinu. Af hvaða ástæðum heldur hann í raun og sann að það sé verið að nota þetta viðmið, að jafnvirði 300 milljónum evra í íslenskum krónum?