152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl.

531. mál
[17:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er allt of langt síðan Alþingi hefur talað um Icesave-málið (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og ég held að það sé full ástæða til að tala aðeins um það hér í dag. Mig langar nefnilega að vekja athygli á breytingum sem eru lagðar til í 14. gr. frumvarpsins. Það er lagt til að stjórn sjóðsins sem hér er rætt um, skilasjóðs, verði skipuð fjórum einstaklingum, áður voru það sex, og að einn skuli skipaður samkvæmt tilnefningu frá Samtökum fjármálafyrirtækja, einn samkvæmt tilnefningu frá Seðlabankanum og tveir af ráðherra án tilnefningar, þar af verði annar þeirra síðastnefndu formaður. Þetta þýðir í rauninni að ríkið eða ráðherra og Seðlabanki Íslands, sem er ríkisstofnun, verða með meiri hluta í þessari stjórn. Tryggingarsjóður innstæðueigenda bendir á það í sinni umsögn um málið, sem kom fram þegar frumvarpsdrögin komu inn í samráðsgáttina, að þarna kunni að skapast ákveðin hætta. Ég ætla að fá að lesa aðeins upp þar sem Tryggingarsjóður bendir á þetta:

„Breytingartillögur þessar gera, eins og áður segir, ráð fyrir því að tveir stjórnarmenn af fjórum verði tilnefndir af ráðherra og þar af verði annar þeirra formaður stjórnar en atkvæði formanns skal ráða úrslitum falli atkvæði stjórnarmanna jöfn. Umræddir stjórnarmenn munu þannig í reynd geta, í krafti atkvæðavægis stjórnarformanns, ráðið mál til lykta með atkvæðum sínum á stjórnarfundum. Auk þess skipar Seðlabanki Íslands, sem er ríkisstofnun að lögum, þriðja stjórnarmanninn af fjórum.

Nái umræddar tillögur fram að ganga kann mögulega að skapast hætta á því, að mati TIF, að litið verði svo á að sjóðurinn hafi fremur einkenni ríkisstofnunar en sjálfseignarstofnunar, burtséð frá yfirlýstu rekstrarformi sjóðsins sem sjálfseignarstofnun.“

Og þá víkur sögunni að Icesave. Þar hélt auðvitað ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, því fram að Tryggingarsjóður innstæðueigenda væri afsprengi íslenska ríkisins. Þetta eru rök sem mörgum þóttu sannfærandi á sínum tíma en öðrum ekki. Og að ríkið bæri þar af leiðandi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. EFTA-dómstóllinn komst samt að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins hvort þetta væri svona en vék engu að síður að því að því að þessi málsástæða teldist ekki sönnuð af hálfu ESA. Tók þetta þannig í að vissu leyti til umfjöllunar. Þá má velta því fyrir sér hvort það hefði haft áhrif á úrlausn Icesave-málsins ef ESA hefði lagt aðra og meiri áherslu á þessa málsástæðu og stjórnskipulag Tryggingarsjóðsins. Þetta er eitthvað sem sjóðurinn bendir sem sagt á í umsögninni og mér finnst þessi ábending afgreidd svolítið billega í greinargerð frumvarpsins. Þar segir í raun bara:

„Vikið var að því í umsögn TIF að hætta kunni að skapast á því að litið verði svo á að sjálfseignarstofnunin TIF hafi fremur einkenni ríkisstofnunar en sjálfseignarstofnunar vegna tillagna frumvarpsins um breytta samsetningu stjórnar.“

Vísað er til málsástæðu Eftirlitsstofnunar EFTA gegn íslenska ríkinu í Icesave-málinu:

„Málsástæðan laut að því að TIF væri afsprengi íslenska ríkisins og ríkið bæri þar af leiðandi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Í málinu taldi EFTA-dómstóllinn málsástæðuna, eins og málatilbúnaði ESA var háttað, ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins.“

Svo segir bara:

„Ráðuneytið er meðvitað um Icesave-málið og þann ágreining sem var til staðar í því máli. Meðal annars í því ljósi er ekki lögð til breyting á rekstrarformi sjóðsins. Hann verður sem fyrr sjálfseignarstofnun …“

En þetta er náttúrlega ekki það sem TIF var að benda á í umsögn sinni. Það liggur alveg fyrir að þetta verður áfram sjálfseignarstofnun. Spurningin er um samsetningu stjórnar, hvort þessi skilasjóður fái í rauninni meiri ásýnd einhvers konar ríkisapparats og hvaða þýðingu það kunni að hafa í framtíðinni. — Ég held ég hafi þetta ekki lengra í bili.