152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég sperrtist náttúrlega allur upp þegar ég heyrði minnst á Icesave og ég held að þetta sé jafnvel í fyrsta sinn sem ég ræði þau mál hér í þingsal. Mér finnst þetta nefnilega mjög billega afgreitt, eins og hv. þingmaður bendir á, sérstaklega ef við lítum síðan til annarrar athugasemdar sem TIF kemur með í umsögn sinni í samráðsgáttinni, sem lýtur að þeirri staðreynd að TIF getur ekki lagt á dagsektir ef skilaskyldir aðilar skila ekki því sem þeim er skylt að skila. Þetta afgreiðir ráðuneytið með því að þá myndi þetta hætta að vera eins og sjálfseignarstofnun þó að rekstrarformið væri náttúrlega það sama samkvæmt lagabókstafnum. En það er heldur ekki það sem TIF er að segja í umsögninni. TIF segir: Það er sama þótt við köllum þetta sjálfseignarstofnun, því að þótt það sé sjálfseignarstofnun að lögum, ef stjórninni er breytt á þann hátt sem lagt er til í frumvarpinu þá (Forseti hringir.) mun þetta hafa öll einkenni ríkisstofnunar og þar með væri grundvöllurinn veikari, sama hvað ríkið vill kalla þetta. Þannig að ég tek heils hugar undir þetta.