152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir það sem hér kom fram. Ég sagði áðan að ákveðnar athugasemdir sjóðsins hefðu verið afgreiddar svolítið billega í greinargerð frumvarpsins og ég held að það eigi ekki síður við um einmitt þetta mál sem varðar dagsektir. Þar segir:

„Ef til þess kemur að aðildarfyrirtæki sjóðsins afhendi honum ekki umbeðnar upplýsingar mun skapast augljóst tilefni til að skoða það sérstaklega og bregðast við eftir þörfum.“

Þetta er sem sagt viðbragð ráðuneytisins við þeim athugasemdum að sjóðurinn þyrfti eiginlega að hafa heimild til dagsekta eða annarra þvingunarúrræða. Ég velti því fyrir mér: Þarf alltaf að bregðast við eftir að skaðinn er skeður? Hvernig væri kannski að rýna þetta og reyna að vera svolítið á undan með vaðið fyrir neðan sig og byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann o.s.frv.?