152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl.

531. mál
[17:43]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sannarlega svo að við lestur þessa máls myndast hugrenningatengsl við atburði sem áttu sér stað hér fyrir nokkrum árum síðan, nokkuð mörgum raunar. Líkt og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson stökk ég til um leið og ég heyrði orðið Icesave þar sem þetta er auðvitað nátengt því máli þar sem deila má um mat íslenskra stjórnvalda á þeirri stöðu. Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í er varðandi það sem hann nefndi hér áðan um viðbrögðin við þeim athugasemdum sem bárust um þetta frumvarp: Telur þingmaðurinn að þau svör sem hér er að finna, þau takmörkuðu svör sem hér er að finna, muni duga til þess að koma í veg fyrir þau ósköp sem við getum ímyndað okkur að hljótist af því að hafa þetta í reynd ríkisstofnun en ekki sjálfseignarstofnun sem hún er að nafninu til?