152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl.

531. mál
[17:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mikilvæg ábending varðandi fyrstu athugasemdirnar sem fjallað er um í samráðskaflanum í greinargerð. Mig langar í samhengi við Icesave-málið og þau atriði að benda á að í Icesave-málinu þá náttúrlega taldi á endanum EFTA-dómstóllinn þessa tilteknu málsástæðu ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins. En eins og ég sagði áðan er auðvitað Evrópurétturinn, ESB-rétturinn, mjög skemmtilegt fyrirbæri. Það þróast allt ofboðslega hratt og lög eru túlkuð á mjög skapandi hátt, þannig að ég held að það þurfi að fara mjög vel yfir réttarframkvæmd bæði ESB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins til að við getum áttað okkur á því hvort hér sé raunverulega einhver hætta á ferðum eða ekki.