152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl.

531. mál
[17:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Tíminn er stuttur þegar við erum að tala um þetta tiltekna mál og það eru spor sem hræða og það eru dæmi sem ber að varast. Þetta eru mjög góðar ábendingar sem hv. þingmaður kemur með þegar maður skoðar það í samhengi við það að svo virðist sem íslensk stjórnvöld séu kerfisbundið fjarverandi þegar unnið er að lagasetningu á vettvangi Evrópusambandsins, þótt um sé að ræða mál sem við innleiðum síðan hér hjá okkur í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, vissulega oftast mál sem komi okkur til góða en engu að síður mál sem við viljum gjarnan hafa áhrif og skoðanir á og höfum oft og tíðum eitthvað til málanna að leggja á fyrri stigum en erum fjarverandi. Þetta er t.d. mál sem tengist sárri sögu okkar Íslendinga og ég hefði áhuga á að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu vinnulagi okkar, hvort þetta væri eitthvað sem hann teldi að við hefðum t.d. getað flaggað á fyrri stigum lagasetningar og hvaða skoðun (Forseti hringir.) hann hefur á því vinnulagi almennt hjá okkur að vera svona sein til.