152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hvers vegna ekki hefði verið brugðist við þessu og hvernig væri rétt að gera þetta og hann vísaði til þess að mögulega væri rétt að Fjármálaeftirlitið hefði þessar heimildir. Þar sem við hv. þingmaður erum bæði í efnahags- og viðskiptanefnd velti ég fyrir mér hvort við ættum ekki bara að einhenda okkur í það, ef það gengur ekki að hafa sjálfseignarstofnun í þessu — að þá verði Fjármálaeftirlitinu falin þessi heimild til dagsekta og þvingunarúrræða.

En aðeins að öðru þessu tengt, sem er það að ætla að gera hlutina eftir á. Við erum náttúrlega nýbúin að sjá þetta gerast. Hæstv. fjármálaráðherra kemur hér og segir að já, hann ætli nú að birta upplýsingar um hluthafana í sölunni á Íslandsbanka ef lög leyfi. Bíddu, fyrirgefðu, en af hverju var ekki farið í það fyrir útboðið að tryggja að lögin leyfðu það? Er þetta ekki einmitt svona: Já, ef aðstæður skapast þá finnum við kannski eitthvað út úr því, ef það skapast augljóst tilefni til að skoða það sérstaklega og bregðast við eftir þörfum. Þetta er ákveðið þetta reddast-viðhorf sem er einhvern veginn alltaf í þessari ríkisstjórn, endalaust fúsk.