152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:56]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nákvæmlega, þetta er hárrétt. Ég verð reyndar að viðurkenna að það kom mér á óvart þegar þessi listi var birtur í ljósi þessarar yfirlýsingar: „ef lög leyfa“. Ég held að það hafi verið ágreiningur um hvernig túlka ætti þessi lög og ég vona að það muni ekki reyna á þetta fyrir dómstólum, að það verði ekki einhverjir sem fara í skaðabótamál við ríkið. En hvað veit maður? Nákvæmlega sama gildir um það sem við erum að ræða hér í dag, þetta þarf að vera skýrt og þetta þarf að vera skýrt fyrir fram. Það þarf að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.