152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið en það eru nokkur atriði sem mig alveg blóðlangar til að koma inn á eftir að hafa staðið hér í andsvörum við hv. þm. Jóhann Pál Jónsson. Ég fæ kannski samt að byrja á atriði sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti á varðandi 7. gr. a í frumvarpinu þar sem miðað er við upphæðir í evrum varðandi umfang framlaga í skilasjóð. Ég held að efnahags- og viðskiptanefnd þurfi að skoða hvernig þetta er bara upp á skýrleika lagaheimilda. Eins og hefur verið bent á þá sveiflast gengi krónunnar dag frá degi og þó að ég ímyndi mér nú að það sé borð fyrir báru hjá flestum lánastofnunum þá hlýtur að vera þægilegra að vera með uppgjör í sama gjaldmiðli og reiknað er með að flestöll innlán séu. Eru ekki þessar stofnanir flestar með reikninga í íslenskum krónum hér innan Íslands? Það er eitthvað sem nefndin skoðar væntanlega. En mér þótti þetta sérstaklega kúnstugt þegar maður hefur frumvarpið fyrir framan sig og horfir á opnuna þar sem þetta ákvæði er vegna þess að akkúrat hinum megin á opnunni þá speglast þetta evruákvæði við nýtt bráðabirgðaákvæði sem lagt er til að bætt verði við lögin um það að stjórn Tryggingarsjóðs eigi að millifæra 26,3 milljarða kr. á milli deilda sjóðsins eigi síðar en fyrir árslok 2022. Þannig að það er ekki einu sinni samræmi í notkun gjaldmiðla í frumvarpinu sjálfu á einni og sömu opnunni. En þetta var stuttur útúrdúr.

Mig langar að nefna tvennt sem ég hnaut um og gæti verið að efnahags- og viðskiptanefnd geti í umfjöllun sinni varpað skýrara ljósi á. Í fyrsta lagi er hér í 7. gr. b fjallað um eitthvað sem heitir sérstakt eftiráframlag. Það eru nokkrar spurningar sem vakna þá. Í fyrsta lagi: Snýst þetta eftiráframlag um það að ef fjármunir skilasjóðs eru ekki nægjanlegir til að mæta tapi eða öðru er skilavaldinu, sem sagt þeim aðilum hjá Seðlabankanum sem halda utan um þetta, heimilt að krefja fyrirtæki og útibú um sérstakt eftiráframlag? Þannig að það er verið að rukka um gjald eða framlag í skilasjóð samkvæmt a-lið þessarar 7. gr., en samkvæmt b-lið á að bæta við að það sé líka hægt að rukka það eftir á.

Þá vakna auðvitað spurningar um afturvirkni á gjaldtöku, hvernig það virkar bara við almennar efasemdir kerfisins varðandi afturvirkni. Við megum ekki setja lög afturvirkt, við megum ekki, að ég held, taka skatt afturvirkt. Þetta geta greinilega verið alvöruupphæðir vegna þess að sérstakt eftiráframlag getur numið allt að þreföldu árlegu framlagi eins og því er aflað venjulega. Þannig að upphæð sem á að nema allt a.m.k. 1% af tryggðum innstæðum getur lagst þreföld á ákveðin fyrirtæki eftir á. Kannski kann ég ekki nógu vel á fjármálakerfið en mér finnst þetta skrýtið. Það sem mér finnst líka skrýtið er að þetta sérstaka eftiráframlag leggst á ákveðna tegund fyrirtækja og útibúa, sem sagt fyrirtæki og útibú samkvæmt e-lið 1. mgr. 2. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Hvaða fyrirtæki eru í þessum e-lið? Það eru fyrirtæki og, ef við á, útibú hér á landi hjá lánastofnunum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Nú hef ég bara ekki hugmyndaflug til að sjá fyrir mér um hvaða stofnanir gæti verið að ræða — eru einhverjir svissneskir bankar með útibú hérna á Íslandi sem við viljum geta krafið um þrefalda eftirágreiðslu til að dekka eitthvað? Ég skil þetta ekki, forseti, en hlakka til að sjá hvort efnahags- og viðskiptanefnd botni í þessu og geti leitt okkur í allan sannleika um hvað þetta mál snýst um; af hverju þetta á við um stofnanir utan EES en ekki innan EES.

Dagsektarákvæðið, sem ekki er í frumvarpinu, sem við ræddum hér í andsvörum — Tryggingarsjóður bendir sjálfur á í umsögn í samráðsgáttinni að það sé bara eðlilegt að lögin kveði skýrt á um eitthvert tilgreint úrræði þegar upplýsingagjöf til sjóðsins er vanrækt. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég hef dálitlar áhyggjur af því hvernig ráðuneytið bregst við þessu í greinargerð frumvarpsins. Ráðuneytið segir að að þess mati þyki ekki ákjósanlegt að sjóðurinn fái dagsektarheimild enda passi það illa við starfsemi sjálfseignarstofnana. Það kann vel að vera, en einhver viðurlög hljóta að þurfa að vera til að tryggja framfylgd við þessi lög. En svo bætir ráðuneytið við og segir, með leyfi forseta:

„Ef til þess kemur að aðildarfyrirtæki sjóðsins afhendi honum ekki umbeðnar upplýsingar mun skapast augljóst tilefni til að skoða það sérstaklega og bregðast við eftir þörfum.“

Er það tilefni ekki löngu komið?

Ég fletti mér til skemmtunar upp í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008, sem er nú vel við hæfi á degi þar sem við erum að ræða rannsóknarnefndir um einkavæðingu banka í tengslum við hæstv. fjármálaráðherra. Og hvað kemur í ljós þar þegar við flettum upp kaflanum sem fjallar um Tryggingarsjóð og fjárfesta? Jú, það kemur í ljós að þar er bara fjallað heilmikið um það að það skorti á að fyrir hendi væru glöggar tölulegar upplýsingar um hvaða fjárhagslegu skuldbindingar hvíldu á TIF allt fram yfir fall bankanna. Hluti af þessu var vegna vanrækslu stjórnvalda, að einn starfsmaður í hlutastarfi átti að halda utan um þennan sjóð sem átti að dekka fjármálakerfi sem var margfalt stærra en eðlilegt gat talist fyrir land af íslenskri stærðargráðu. En hluti af þessu var líka þetta innstæðukapphlaup sem bankarnir stóðu í rétt fyrir hrun, og þá nefnum við sérstaklega Landsbankann sem fór sérstaklega til Hollands og Bretlands að sækja sér lausafé í gegnum Icesave-reikningana. Mig langar að drepa hér niður þar sem sagt er hvað hafi komið fram við skýrslutöku þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, sem var viðskiptaráðherra fyrir hrun. Hann sagðist við skýrslutöku ekki hafa haft aðrar tölulegar upplýsingar um aukningu innlána í íslensku bönkunum en fram hefðu komið í skýrslum og gögnum frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Hann hafi alveg vitað af þessari söfnun erlendis á innlánum, en þær tölur rötuðu ekki til hans. Það var ekki fyrr en leið á árið 2008 sem hann var upplýstur nákvæmlega um þetta. Nefndi hann í skýrslutöku sem dæmi að hann hefði ekki fengið vitneskju um að 200 milljón punda útflæði hefði orðið af Icesave-reikningunum í Bretlandi í byrjun apríl 2008 fyrr en löngu síðar.

Hér skal ekki fullyrt hvar nákvæmlega misbresturinn í upplýsingagjöfinni var en ég held að þetta fordæmi hljóti að fá okkur til að í það minnsta íhuga að setja inn einhvers konar þvingunarúrræði til að upplýsingar rati örugglega til skilavaldsins. Það er nefnilega ekki hægt að afskrifa þessa ábendingu í umsögn TIF með því að ýta henni til hliðar með einhverri útskýringu sem væri hægt að útleggja sem: Ja, ef skaðinn er skeður þá skulum við taka á þessu, þá getum við skoðað dagsektarúrræði eða önnur þvingunarúrræði. Vegna þess að skaðinn er skeður. Þess vegna er það dálítið, ég ætla bara segja svekkelsi að þetta hafi ekki verið skoðað nánar upp í ráðuneyti áður en málið kom til okkar, og sérstaklega vegna þess að af því hvernig skaðinn skeði á sínum tíma þarna 2008 þá er þessi Tryggingarsjóður eitthvað sem almenningur veit t.d. mun meira af en fyrir hrun. Fyrir hrun var þetta skúffa í Seðlabankanum sem enginn hugsaði um og innihélt, að mig minnir, stuttu fyrir hrun 10 milljarða en hefði þurft að vera með 2.000 eða 3.000 milljarða á lausu til að geta brugðist við áfallinu. En eftir hrun þá hélt ég einmitt að við hefðum farið að feta þennan veg mun varlegar, og mætti jafnvel alveg segja að við höfum gert það of varlega, sem endurspeglast t.d. í því að þessi 26,3 milljarða millifærsla, sem ég nefndi hér áðan í upphafi máls míns að ætti að eiga sér stað samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu, er upphæð sem samkvæmt stöðu innlána í dag þyrfti fyrir árið 2027 að vera 11 milljarðar.

Það er sem sagt viðmiðið í Evrópuregluverkinu sem hér er verið að innleiða varðandi skilasjóðinn: Miðað við það sem er í tryggðum innstæðum í dag þá þurfa að vera 11 milljarðar á reiðum höndum í sjóðnum. Við eigum 26,3 nú þegar þannig að við erum með belti og axlabönd í þessum sjóði hvað þetta varðar vegna þess að allir í Seðlabankanum, við öll í stjórnmálunum, allur almenningur, vitum hvað það skiptir miklu máli að þetta regluverk sé traust, að við tölum nú ekki um einmitt á tímum eins og þessum þar sem við sjáum fjármálaráðherra koma stórum hluta af Íslandsbanka í hendur sömu aðila og stóðu að málum hér fyrir hrun. Fólkið sem átti stóra ráðandi hluti í Glitni og Kaupþingi er bara allt í einu komið að bankarekstri aftur. Þannig að já, það vekur slæm hugrenningatengsl að sjá ráðuneytið afskrifa þessa umsögn Tryggingarsjóðs varðandi nauðsyn þess að vera með þvingunarúrræði í lögunum því að ef ég væri ráðuneyti myndi ég ekki þora það. Ég myndi ekki þora að treysta því að fjármálakerfið muni hér um aldur og ævi vera það heiðarlegt að allar upplýsingar skili sér réttar og tímanlega til tryggingarsjóðsins þannig að hann sé alltaf í stakk búinn til að grípa inn í þegar á bjátar, einmitt í ljósi reynslunnar og einmitt í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið í gangi síðustu vikur á vegum hæstv. fjármálaráðherra.