152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[18:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er freistandi að fara um víðan völl og tala um stjórnmálaöflin sem gera alltaf grín að því sem er kallað í þeirra röðum eftirlitsiðnaður, sem er ekkert annað en kerfi sem er búið til til að vernda almenning og sameiginlega hagsmuni okkar og hagsmuni einstaklinga sem standa höllum fæti og hagsmuni náttúrunnar og hagsmuni framtíðarinnar. Það er eftirlitsiðnaðurinn. Hann snýst bara um það að við getum gengið að því vísu að hér sé t.d. allur atvinnurekstur nokkurn veginn í samræmi við lög og reglur, það sé ekki verið að stunda félagsleg undirboð eða eitthvert svínarí á vinnumarkaði. Við þurfum eftirlitsiðnað til að fylgjast með því. Við þurfum dagsektir og alls konar úrræði til að grípa inn í ef vinnustaður er að svindla á þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði. Af hverju þarf ekki einhver úrræði til að taka á því ef fjármálastofnun er ekki að skila lögbundnum upplýsingum um reksturinn til þess að sé hægt að sjá til þess að Tryggingarsjóður sé í stakk búinn til að taka á mögulegu falli stofnunarinnar? Hvaða stofnun er líklegust til að standa ekki skil á þessum upplýsingum? Jú, það er einmitt sú sem er líklegust til að vera við það að falla og þá er þeim mun brýnna að hún skili upplýsingum. En hvað er hægt að gera? Innleiðing á þessum gerðum er auðvitað til þess að bæta íslenskt lagasafn. Þetta er til þess að skýra hlutina og færa þá nær því sem gerist á samevrópskum fjármálamarkaði. Við erum náttúrlega bara á einum fjármálamarkaði í Evrópu. En það er alltaf svigrúm til að gera betur og það er ekki allt meitlað í stein í Evrópureglunum heldur þarf að laga þær að því stofnanaumhverfi t.d. sem er hér á landi. Ég held að við hljótum að taka því mjög alvarlega sem Tryggingarsjóðurinn sjálfur leggur til, að það verði færð í lögin einhvers konar úrræði til að tryggja að upplýsingarnar sem þessi sjóður byggir á séu sem réttastar.