152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[12:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að nota tækifærið í andsvari við hæstv. ráðherra og spyrja út í eitt tiltekið atriði í frumvarpinu og það er hver sé aðkoma almennings. Hefur almenningur rétt á því að gera athugasemdir við ferlið, athugasemdir við leyfisveitingar til bráðabirgða? Eitt af þeim atriðum sem gerð var athugasemd við í álitum ESA var að réttur almennings til að koma sjónarmiðum sínum að hefði verið brotinn. Ég sé ekki í fljótu bragði, frú forseti, að þessi ágalli hafi verið lagaður í frumvarpinu.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Hvað varðar þátttökurétt almennings er bent á að gert er ráð fyrir að almenningur hafi aðkomu að leyfisveitingu til bráðabirgða. Almenningur hefur einnig aðkomu að endanlegri leyfisveitingu og, eftir atvikum, lagfæringum á umhverfismati.“

Það er hins vegar ekki ljóst, frú forseti, hvernig þessi réttur er tryggður. Mig fýsir að vita hvort hæstv. ráðherra sé ekki alveg örugglega á því að frumvarpið og lögin, þegar þeim hefur verið breytt, tryggi að sjónarmið almennings komi fram í ferlinu og það sé gert með lagalegum hætti þannig að taka þurfi tillit til þeirra, t.d. í samræmi við skuldbindingar okkar í Árósasamningnum, og þetta sé alveg geirneglt í frumvarpinu svo það valdi ekki vandræðum þegar fram í sækir.