152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Já, það er gott að heyra að það er enginn vilji til að stunda ófagleg vinnubrögð eða fara fram hjá því sem þarf að gera. Það stendur samt eftir að hér er verið að lögfesta leiðina um bráðabirgðaákvæði. Ég sagði það kannski ekki nógu skýrt í ræðu minni áðan hvað veldur mér áhyggjum. Forsagan segir okkur að búið var að úrskurða; úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðaði 2018 að fella úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi fyrir Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Þá var brugðist þannig við að þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, lagði fram frumvarp um breytingu á lögum um fiskeldi sem fól í sér sérstaka heimild ráðherra til að veita rekstrarleyfi til bráðabirgða. Síðan var það kært og svo tók ESA við. Kannski er það kjarnaspurningin í þessu stóra og mikilvæga máli: Þarf bráðabirgðarekstrarleyfi? Það má spyrja að því. Ég spyr mig hvort viðbrögð ráðherrans árið 2018 hafi verið rétt. Þau fóru hér í gegn og ekkert var um það að segja, en ESA brást við. Er það ekki mjög oft þannig, frú forseti, að þegar fyrirtæki hafa fengið bráðabirgðaleyfi þá er, eins og áður hefur komið fram, frekar auðvelt að færa rök fyrir því að það séu t.d. ríkir fjárhagslegir hagsmunir undir og því erfiðara að fella leyfi úr gildi? Mér finnst mikilvægt að við tökum það með inn í myndina.