152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þetta andsvar. Ég deili sannarlega áhyggjum þingmannsins um varanlega hjáleið. Það er í rauninni kjarni þessa máls. Ég var ekki hér á hinu háa Alþingi árið 2018 og þingmaðurinn þekkir vel þetta tiltekna dæmi og það kann að hafa verið rökrétt að veita þessa heimild þá, en er rétt að festa hana í lögum með þessum hætti? Það er auðvitað viðfangsefni þingnefndarinnar og okkar hér í þessum sal að taka afstöðu til þess, að fjalla um það ítarlega og taka afstöðu til þess.

Ég vil einnig taka undir sjónarmið um mikilvægi ásýndarinnar, þess að fara að lögum og reglum og ekki síst að framkvæma mat á umhverfisáhrifum framkvæmda með réttum og fullnægjandi hætti, af því að það snýst líka um ásýnd þeirrar vöru sem við erum að selja. Og þá erum við bara komin að orðspori Íslands ef út í það er farið. Fyrirtæki sækjast eftir vottunum til að sýna fram á gæði varanna sem þau eru að selja og væntanlega vilja öll fyrirtæki fara að lögum og hafa sem besta ásýnd í þessum efnum. Þeim mun mikilvægara er að vera skuldbundinn ferlinu, gera það eins vel og kostur er og skila þannig niðurstöðu sem er betri fyrir allt samfélagið, umhverfið og fyrirtæki.

Í lokin vil ég líka taka undir það sem hv. þingmaður sagði um jafnræði fyrirtækjanna og að það fari allir að lögum og að það sé ekki leið til að búa til ójafnan leikvöll, ef þannig má að orði komast.