152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:24]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við þurfum aðeins að fara fyrst yfir samhengi þessa máls sem er rætt hér í dag. Þann 15. desember síðastliðinn barst íslenskum stjórnvöldum formlegt áminningarbréf frá Eftirlitsstofnun EFTA það sem kemur mjög skýrt fram það mat stofnunarinnar að íslenska ríkið hafi brotið gegn átta greinum í EES-samningnum um mat á umhverfisáhrifum þegar lögum var þröngvað hér í gegnum þingið á einum degi árið 2018 og þeim svo framfylgt, lögum sem veittu ráðherrum í raun rétt til þess að gefa út rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja án þess að fullnægjandi og gilt umhverfismat hefði farið fram. Ég held að flest okkar hér inni sem tókum þátt í þessari umræðu þekkjum þar forsöguna. Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála hafði úrskurðað haustið 2018 að fella úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðalax og Arctic Sea Farm til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði og úrskurðarnefndin vísaði líka frá beiðni fyrirtækjanna um frestun réttaráhrifa. Þáverandi sjávarútvegsráðherra gekk mjög rösklega til verks og lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um fiskeldi sem fól í sér sérstaka heimild ráðherra til að veita rekstrarleyfi til bráðabirgða ef fyrra rekstrarleyfi væri fellt úr gildi vegna annmarka á leyfisveitingu. Í kjölfarið beindu náttúruverndarsamtök kvörtun til ESA sem komst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu vorið 2020 að þessa framangreinda heimild ráðherra, sem ég fór hér yfir, væri ekki í samræmi við ákvæði Evróputilskipunar um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Sú niðurstaða var svo áréttuð í bréfinu núna í desember. Í þessu felst auðvitað að það er brot á EES-reglum að veita leyfi til framkvæmda eða starfsemi sem heyrir undir lög um umhverfismat án þess að gilt umhverfismat hafi farið fram. Samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2011/92 skulu aðildarríki áður en leyfi fyrir framkvæmd er veitt samþykkja allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framkvæmdir sem líklegt er að hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif séu háðar kröfu um leyfi til framkvæmda og mati á áhrifum þeirra á umhverfið.

Þessi bráðabirgðaniðurstaða frá því 2020, sem var í raun áréttuð í bréfinu sem ég minntist á hér áðan, þann 15. desember síðastliðinn, felur í sér að þarna var brotið gegn Evrópureglum um m.a. lýðræðislegan rétt almennings til þess að hafa eitthvað um það að segja hvernig er gengið um náttúruna og hvernig er gengið um umhverfi okkar. Eins og svo oft voru það evrópskar stofnanir, stofnanir Evrópusamstarfsins sem við eigum aðild að, sem tóku til varna fyrir þennan rétt almennings meðan það voru í raun íslenskir stjórnmálamenn sem brutu gegn þessum rétti, með lögum sem gengu algerlega í berhögg við viðurkenndar leikreglur um mat á umhverfisáhrifum sem við og nágrannaþjóðir okkar eigum að styðjast við og höfum skuldbundið okkur til að styðjast við. Það er mjög mikilvægt að laga þetta og vanda til verka núna í hvers kyns lagasetningu sem hefur með þessi tilteknu atriði að gera. Annars eigum við á hættu að Ísland verði enn einu sinni dregið fyrir EFTA-dómstólinn og þá ekki í fyrsta sinn, fyrir að brjóta gegn reglum um mat á umhverfisáhrifum. Við hér á Alþingi eigum að standa með þessum rétti almennings og standa með náttúrunni. Það er hún sem á að njóta vafans. Í því frumvarpi sem rætt var fyrr í dag þá sýnist mér markmiðið fyrst og fremst vera að treysta heimildina, styrkja sérstaklega þessa heimild sem ESA hefur gert svo alvarlegar athugasemdir við. Ég fæ ekki skilið þetta frumvarp öðruvísi. Með þessu er í raun verið að draga mjög rækilega úr vægi reglna um mat á umhverfisáhrifum á sviði fiskeldis. Það er verið að draga tennurnar úr þessu ferli öllu enda leiðir af núgildandi ákvæði og beitingu þess hingað til að fiskeldisfyrirtæki geta í rauninni gengið að því sem vísu að annmarkar á umhverfismati muni ekki hafa aðrar afleiðingar heldur en bara þær að það þurfi að bæta úr slíkum annmörkum síðar með frekara mati. Það segir sig alveg sjálft að þarna er verið að draga úr hvata þessara fyrirtækja til þess að vanda til verka við umhverfismat. Ég held að enginn geti neitað því að það hljóta að verða áhrif þessa frumvarps. Það hefur verið bent á að svona lagasetning geti beinlínis leitt til þess að framkvæmdaraðilar, í þessu tilviki fiskeldisfyrirtækin, muni í auknum mæli skila bara inn illa unnu og ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að leyfisveitendur veiti þeim bráðabirgðaleyfi og án þess að framkvæma fyrst gilt umhverfismat.

Hér hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að slík leyfisveiting hljóti að vera háð því að það sé mikið í húfi. En er ekki alltaf svolítið mikið í húfi þegar kemur að fiskeldisframkvæmdum, segir það sig ekki sjálft? Af því að ég veit að hæstv. ráðherra er hérna enn í húsi þá langar mig að spyrja hana, þótt hún sé reyndar ekki sjálf ráðherra þessa málaflokks en þekkir þetta eflaust þokkalega og er í góðu sambandi við fólk sem þekkir vel til og er talsmaður þessa frumvarps hér í dag, og beina þeirri spurningu til hennar, hvort sem hún svarar því núna í andsvari eða einhvern tíma seinna í dag, hvort hún sé sannfærð um að þetta frumvarp komi til móts við þær athugasemdir sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur beint til íslenskra stjórnvalda, hvort hún sé ekki sammála þeim skilningi mínum eftir að hafa farið yfir þetta og borið saman við reglur EES-samningsins og þær sem af honum leiða að það sé í rauninni alltaf skilyrði um að umhverfismat hafi farið fram áður en leyfi til framkvæmda er veitt og það þurfi að vera gilt umhverfismat. Svigrúm ríkja til að leyfa mat eftir á sé mjög takmarkað. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hún sé ekki sammála því mati mínu og þá í ljósi þess lykilatriðis, eins og kemur fram í tilskipun nr. 2011/92, að skilyrði fyrir því að veita megi framkvæmd eða starfsleyfi til starfsemi sem hefur umtalsverð umhverfisáhrif sé að gilt umhverfismat hafi farið fram áður en leyfi er veitt, það sé algjört lykilatriði. Ég myndi kannski vilja heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún hafi engar áhyggjur af því, ef þetta frumvarp nær fram að ganga óbreytt og í þeirri mynd sem hefur verið lagt fram fyrir þingið, að það geti skapað þá hættu að Ísland verði dregið fyrir EFTA-dómstólinn á næstu árum.

Mér finnst við vera svolítið að byrja á öfugum enda með þessu frumvarpi. Við ættum fyrst og fremst að vera einmitt að tryggja betur og treysta betur þessa ferla, þessa gæðaferla, við umhverfismat. Reglur um svona eftirámat hljóta að grafa undan þessu prinsippi um umhverfismat framkvæmda og eins um þátttökurétt almennings og réttinn til endurskoðunar ákvarðana sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

Eins vil ég fá að beina þeirri spurningu til ráðherra, hvort sem hún svarar í andsvari eða einhvern tímann seinna í dag, hvort henni finnist að almenningur geti átt einhverja raunhæfa aðkomu að veitingu leyfis í svona bráðabirgðamálsmeðferð eins og mælt er fyrir um í þessu frumvarpi. Það er fróðlegt að heyra hvernig ráðherra sjái þetta fyrir sér allt saman. Ég hjó eftir því í skjalinu þar sem fjallað er um áform um lagasetninguna að forsenda fyrir leyfi til bráðabirgða sé björgun verðmæta. En eru það ekki rök sem mætti nota um hvaða fúsk sem er? Þetta hlýtur að grafa undan tilgangi og markmiðum með úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og þeim réttindum sem umhverfisverndarsamtökum, fyrir hönd almennings og náttúrunnar sjálfrar, eiga að vera tryggð með Árósasamningnum og ákvæðum um umhverfismat í EES-samningnum og þeim gerðum sem leiða af honum. Þetta er það sem ég hef svolítið áhyggjur af þegar löggjafinn og framkvæmdarvaldið bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA með þeim hætti sem gert er í þessu frumvarpi.