152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:40]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í 3. gr. frumvarpsins, sem verður 7. gr. a laganna, um bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi, stendur, með leyfi forseta: „Umhverfisstofnun er heimilt í sérstökum undantekningartilvikum þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram starfsemi …“ Og svo kemur eitthvað í framhaldinu. „Umhverfisstofnun skal eftir atvikum leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar …“ Eftir atvikum? Hvað þýðir eftir atvikum? Þegar þeim hentar? Hvað þýðir þegar brýn þörf er á? Hver ætlar að skilgreina þessa brýnu þörf? Er það Umhverfisstofnun? Er það sá sem á í hlut, rekstraraðilinn? Já, ég þarf að byrja starfsemina strax af því að það skipti máli peningalega. Ég þarf að standa skil á lánunum mínum og verð að koma verksmiðjunni í gang án tafar. Og hvað þýðir þetta fyrir hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd að fá slíka pressu á sig, sem getur í raun og veru þýtt að fyrirtækin fari bara annað? Er ekki bara verið að setja óþarfa pressu á litlar sveitarstjórnir eða litlar heilbrigðisnefndir víðs vegar um landið sem ráða illa við hlutverk sitt vegna vanþekkingar á lögformlegum ferlum? Ég upplifi þetta svolítið þannig að þarna sé bara verið að búa til pressu sem einingar eins og litlar heilbrigðisnefndir ráða bara ekki við. Eins og ég hef sagt mörgum sinnum: Sveitarfélagið Reykjanesbær, þótt stórt sé, réði bara ekkert við að koma verksmiðju eins og þessari kísilverksmiðju í gang. Það þarf bara miklu meira til. Það verður að vera niðurnjörvað kerfi, að mínu mati, sem heldur utan um þetta.