152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa söguyfirferð sem var í upphafi hans máls þar sem hann rakti atburðarásina 2018 þegar hagsmunaaðilar fengu bráðabirgðaákvæði sett í lög til þess að bjarga verðmætum, eins og það var rökstutt. Mér finnst mikilvægt að hafa í huga í sambandi við þetta að sú ákvörðunin sem bráðabirgðaákvæðið snerti snerist ekki um reksturinn í heild sinni heldur stækkun hans. Hún snerist um framkvæmd sem fór af stað þrátt fyrir að það væri þekktur galli á umhverfismatinu, þótt það væri vitað af kæru. Það var komin fram kæra gagnvart þekktum galla á matinu og samt var farið af stað í framkvæmdina. Ég hefði einmitt haldið að frekar en að treysta heimildina í sessi, heimildina til að fara fram hjá góðum reglum, þá ættum við að draga einhvern annan lærdóm af þessu dæmi. Við ættum að draga þann lærdóm að vera kannski með skýrari tímalínu teiknaða inn í lögin um það hvenær framkvæmd megi fara af stað á grundvelli umhverfismats, hvort kærufrestir þurfi kannski að vera liðnir eða hvað það er, hvort kæra ætti t.d. að fresta réttaráhrifum. Ef þú ert ekki búinn að fá úrskurðaraðila gagnvart kæru þá megirðu ekki fara af stað í framkvæmd. Værum við ekki á betri slóðum þar ef við myndum standa þannig vörð um almannahagsmunina sem öll þessi regluverk eiga að standa vörð um?