152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:47]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt hitt naglann á höfuðið þarna. Ef við ætlum að hafa hagsmuni almennings, hagsmuni náttúrunnar, hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi þá ættum við fyrst og fremst að leggja áherslu á að bæta þá ferla sem umhverfismat lýtur að. Þannig hefur þróunin einmitt verið í Evrópu. Eins og ég sagði áðan finnst mér við svolítið vera að byrja á röngum enda. Hér er í rauninni verið að festa í lög heimild Matvælastofnunar til að sniðganga úrskurði frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem sagt um að mat á umhverfisáhrifum sé haldið galla, af því að það er verið að lögfesta ákvæði sem gerir stofnuninni kleift að líta fram hjá úrskurðum þeirrar nefndar, þannig að það verði þá bara vaðið áfram í þágu einhverra ákveðinna hagsmuna því að það er svo mikið í húfi, mikil verðmæti sem þarf að bjarga. Þótt það sé ekki ég sem er í andsvörum við hv. þingmann þá langar mig að fá að misnota aðstöðu mína og heyra frá honum — ég er bara forvitinn að heyra hvernig það var þegar lögunum var þröngvað í gegn á einum degi. Hann var á þeim tíma enn þá í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Mér þætti forvitnilegt að heyra frá honum hvernig andrúmsloftið var hérna og hvernig þrýst var á þingheim, hvaða rök voru notuð fyrir því að það þyrfti að æða áfram.