152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Mér datt ekki í hug, þegar ég vaknaði í morgun að stjórnarliðið hefði allt einhvern veginn látið sér lynda við þá hugmynd að Bjarni Benediktsson ætti að ráða því hvernig embættisfærslur Bjarna Benediktssonar yrðu rannsakaðar. Fyrirgefið, forseti, ég hafði bara ekki hugmyndaflug í þetta. Það hrannast upp fréttir sem benda til þess að vandinn við útboðið á Íslandsbanka sé langt út fyrir það sem Ríkisendurskoðun getur nokkurn tímann náð utan um miðað við það umboð sem hún hefur. Söluráðgjafar fengu 700 milljónir fyrir að hringja í vini sína og bjóða þeim að fá afsláttarbréf. Svo keyptu þeir sjálfir dálítið af bréfum á afslætti og svo er þarna fullt af einhverjum mönnum sem ég hefði haldið að mættu ekki einu sinni opna reikning í Íslandsbanka vegna rannsókna á mútubrotum í Namibíu, (Forseti hringir.) hvað þá að eiga bankann.

Í alvöru, forseti, hvaða della er það að standa í vegi fyrir rannsóknarnefnd til að skoða þetta mál af alvöru?