152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þegar fleiri og fleiri upplýsingar verða opinberar um lokað útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka vakna efasemdir um að lögunum hafi verið fylgt sem ætlað var að móta reglurnar og sjá til þess að ferlið væri gegnsætt. Það er nefnilega ekki bara það að þeir sem fengu að kaupa hafi verið fyrrum eigendur banka sem ráku þá í strand, og íslenskt samfélag um leið, sem gerir þessa sölu umdeilda. Það er ekki bara það að faðir ráðherrans, sem ber ábyrgð á sölunni, hafi fengið að kaupa hlut á afslætti og fjárfestarnir, sem keyptu og seldu strax í fyrra útboði með miklum hagnaði, hafi fengið að leika sama leikinn, heldur einnig það að söluferlið virðist ekki vera í samræmi við lögin sem setja reglur og skýra umgjörð um sölu bankanna.

Forseti. Það eru svo ríkir almannahagsmunir þarna undir að það er mjög brýnt að Alþingi skipi rannsóknarnefnd. (Forseti hringir.) Ég ber þá von í brjósti að hv. alþingismenn, allir, hafi þann kjark að standa saman til að skipa þessa nefnd til að koma þessum málum á hreint.