152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:18]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi áðan þá er það þannig að eftir því sem fleiri og fleiri vísbendingar berast um að þarna hafi eitthvað mjög óeðlilegt átt sér stað þá einhvern veginn forherðast stjórnarliðar í þeirri afstöðu að ekki megi skipa rannsóknarnefnd. Þannig er staðan. Þeir standa í vegi fyrir því. Hvað eru margir stjórnarliðar hérna í salnum? Ég sé ekki einn einasta. Ég veit að það er gott veður úti, ég veit að það er alveg að koma páskafrí en við berum ábyrgð hérna. Traustskrísa er komin upp og við getum ekki bara haldið áfram að tala um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það er ekkert að ástæðulausu, virðulegi forseti, sem Samfylkingin kallaði eftir því að öðrum ráðherra en Bjarna Benediktssyni yrði falið að fara með þessa bankasölu. Það er vegna þess að hann á sér viðskiptasögu sem beinlínis tengist (Forseti hringir.) hruni þess banka sem nú er verið að selja. Mig óraði samt ekki fyrir því, (Forseti hringir.) þegar ákveðið var að halda áfram söluferlinu, að nokkrum vikum síðar yrði búið að selja eignarhlut í bankanum til pabba ráðherra, (Forseti hringir.) til sakbornings í mútubrotamáli og til fólks með afar slæma reynslu af bankarekstri. Þetta er ótrúlegt og við verðum (Forseti hringir.) að slíta þessum fundi og koma á fót rannsóknarnefnd.