152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir þá kröfu að við gerum hlé á þessum fundi og forystumenn flokkanna, hvort sem það eru formenn þeirra eða þingflokksformenn, setjist niður með forseta og fari yfir stöðuna. Hér er mjög alvarleg staða komin upp. Hér eru ásakanir um spillingu, það eru ásakanir um lögbrot, gagnrýni kemur úr öllum áttum á þetta söluferli. Hér eru almannahagsmunir undir og við sem hér erum kjörin eigum einmitt að gæta þeirra og við þurfum að taka almannahagsmuni fram fyrir sérhagsmuni í þessum efnum sem öðrum. En það er ekki nóg að það séu hv. stjórnarandstöðuþingmenn sem krefjast þess að hér séu almannahagsmunir settir framar sérhagsmunum. Stjórnarþingmenn þurfa að koma með okkur hér. Hv. þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og jafnvel Sjálfstæðisflokksins verða að koma með okkur til þess að meiri hluti sé fyrir rannsóknarnefnd sem nauðsynlegt er að setja á laggirnar.