152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að staðan í dag sé ekki alveg eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson lýsti henni, að stjórnarliðar væru í skýjunum. Þau voru það vissulega fyrstu klukkutímana á eftir en nú er farið að falla svo ískyggilega á silfrið að ég held að það séu farnar að renna tvær grímur á æðimarga. Óþægindin sem birtust í ummælum, greinum, viðtölum og hér í stólnum frá stjórnarliðum benda auðvitað til að svo sé. Ég held að það sé líka alveg augljóst að það er í allra þágu, líka stjórnarliða, að leggjast í þessa rannsókn. Það er enginn að saka þau um að hafa gert neitt af sér. Frú forseti hlýtur hins vegar að átta sig á því að í þessum sal hér núna eru bara stjórnarandstæðingar sem eru þá meira eða minna að tala við sjálfan sig og frú forseta, þannig að ég legg til að það verði fundin leið til að tefla saman stjórn og stjórnarandstöðu.