152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér hefur verið rætt um röð hlutanna. Það er einhver furðuleg eftiráskýring að það sé orðin einhver forsenda fyrir þessu að Ríkisendurskoðun fái verkefnið fyrst til sín, það stenst auðvitað enga skoðun. Hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á það í umræðu fyrr í dag og rifjaði það upp að auðvitað hefði ríkisendurskoðandi ekki haft neina aðkomu að rannsókn bankahrunsins áður en sérstök rannsóknarnefnd var skipuð um það mál. Ef það á að vera hálmstráið, sem stjórnarliðar ætla að hanga á til að réttlæta þessa nálgun sem þeir í dag virðast tala fyrir, er ekki mikið hald í því hálmstrái.