152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek eftir því að stjórnarliðum fannst þetta afskaplega sárt og ruku hér úr salnum, þessar örfáu hræður sem létu sjá sig eftir að við vöktum athygli á því að þau væru ekki hér til að eiga samtal við okkur. Mér finnst merkilegt, forseti, þegar við óskum eftir því að hlé verði gert á þingfundi, að áfram skuli haldið. Við óskum eftir því að fá rannsóknarnefnd og hingað koma stjórnarliðar hver á fætur öðrum til að hrútskýra fyrir okkur: Jú, þið megið fá rannsóknarnefnd en bara ef okkur finnst að ekki sé nóg að gert þegar Ríkisendurskoðun verður búin að skoða þetta. Þá skulum við styðja það — ef, ef, ef niðurstaðan er þannig að okkur finnst tilefni til að styðja það. Þetta er auðvitað bara heimsins mesta met í því að koma með útúrsnúninga, tafaleiki, leiðir til að velta boltanum á undan sér og tryggja að engin raunveruleg rannsókn verði gerð á því sem þarna fór fram.

Ég legg til, og geri það að tillögu minni, að hér verði enginn þingfundarfriður fyrr en gert hefur verið hlé á þessum fundi og fundið hefur verið út úr því hvernig við ætlum að hrinda af stað rannsóknarnefnd Alþingis.